Afstaða, félag fanga, hyggst senda stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis erindi og óska eftir því að nefndin taki til skoðunar skipun formanns nefndar um eftirlit með störfum lögreglu. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði í desember Skúla Þór Gunnsteinsson, formann nefndarinnar.
Fréttablaðið greindi frá því í gær að innanríkisráðuneytið sem þá hét hefur ítrekað þurft að biðjast afsökunar á háttsemi Skúla sem var starfsmaður ráðuneytisins. Hann var fluttur til í starfi vegna kvartana og starfar nú í sveitarstjórnaráðuneytinu. Kvartanir gegn Skúla vörðuðu óviðeigandi athugasemdir og efni tölvupósta úr netfangi hans í ráðuneytinu. Annars vegar um félag fanga og starfsmenn umboðsmanns Alþingis og hins vegar í pósti til Barnaverndarstofu um konu sem var að slíta samvistum við vin hans.
Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, var ekki búin að kynna sér málið til hlítar í gær en útilokaði ekki að nefndin tæki málið fyrir. „Nefndin getur tekið öll mál til skoðunar sem varða athafnir framkvæmdarvaldsins. Hún hefur mjög ríka eftirlitsskyldu,“ segir Helga Vala.
