Lögreglan í Þýskalandi fann lík tveggja kvenna í íbúð konu sem var skotin til bana með lásboga ásamt tveimur öðrum í Bæjaralandi um helgina. Málið þykir það dularfyllsta en lögregla reynir nú að varpa ljósi á tengsl tveggja kvenna og eldri karlmanns sem voru skotin með lásboga.
Lík hinna kvennanna tveggja fundust í íbúð í Wittingen í norðanverðu Þýskaland, hundruð kílómetra frá hótelinu við Ilz-ána nærri Passau í Bæjaralandi þar sem konan sem bjó í íbúðinni fannst látin á laugardag. Lögreglan hefur ekki greint frá tengslum kvennanna þriggja eða hvernig dauða þeirra bar að. Hún hefur aðeins sagst rannsaka tengsl líkfundanna tveggja.
Konan sem bjó í íbúðinni í Wittigen var þrítug. Hún fannst látin á hótelberginu í Bæjaralandi ásamt 53 ára gömlum karlmanni og 33 ára gamalli konu. AP-fréttastofan segir að karlmaðurinn og eldri konan hafi fundist á rúmi þar sem þau héldust í hendur. Þau höfðu verið skotin nokkrum örvum í höfuðið og brjóstið. Þau voru búsett í bænum Berod í suðvesturhluta Þýskalands.
Yngri konan fannst látin í blóði sínu á gólfi herbergisins. Hún hafði verið skotin einni ör í gegnum brjóstið. Það er hún sem var búsett í Wittingen þar sem lík kvennanna tveggja fundust.
Tveir lásbogar fundust á herberginu sem virðast hafa verið notaðir. Þriðji ónotaði boginn fannst í poka í dag. Lögreglan hefur sagt að ekkert bendi til þess að nokkur annar hafi komið nálægt dauða fólksins.
Fundu lík heima hjá konu sem var skotin með lásboga

Tengdar fréttir

Fundust látin með lásboga í hendi
Lögreglan í Bæjarlandi í Þýskalandi rannsakar mál vegna fundar þriggja líka á hótelherbergi, sem höfðu orðið fyrir örvum lásboga.