Erlent

Dómsigur fyrir bann Trump við transfólki í hernum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum gegn transbanni í hernum í Washington-borg.
Frá mótmælum gegn transbanni í hernum í Washington-borg. Vísir/EPA
Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur skipað dómara á neðra dómstigi að endurskoða úrskurð sinn um að bann sem Donald Trump forseti lagði við því að transfólk gegndi herþjónustu stríddi gegn stjórnarskrá. Dómaranum var skipað að taka meira tillit til sjónarmiða hersins í málinu.

Trump forseti tilkynnti að hann ætlaði að banna transfólki að gegna herþjónustu í ágúst árið 2017. Fullyrti hann að fyrri stefna ríkisstjórnar Baracks Obama sem gerði transfólki kleift að starfa í hernum ylli hernum „gríðarlegum lækniskostnaði og truflunum“.

Umdæmisdómstóll í Seattle felldi bannið úr gildi með þeim rökum að það bryti líklega gegn stjórnarskrárvörðum réttindum transfólks í hernum. Dómarinn taldi það sama gilda um breytta útfærslu Trump-stjórnarinnar á banninu í fyrra.

Hæstiréttur Bandaríkjanna leyfði banninu að taka gildi í janúar á meðan tekist er á um lögmæti þess fyrir dómstólum.

Nú hefur umdæmisáfrýjunardómstóll fellt úrskurð neðra dómstigsins úr gildi og skipað dómaranum að taka frekara tillit til röksemda hersins. Ekki var tekin afstaða til lögmætis bannsins, að því er segir í frétt Reuters. Áfrýjunardómararnir sögðu bannið mismuna transfólki í hernum en útfærslan frá því í fyrra væri verulega ólík upphaflega banninu. Því þurfi að fara aftur yfir dóminn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×