Hér er hefðbundinn sauðfjárbúskapur en einnig bleikjueldi.
Á bæjarhlaðinu hjá þeim Ragnhildi Jónsdóttur og Jónasi Erlendssyni tókum við eftir því að þar var rafmagnsbíll í hleðslu.

Þau fara með okkur að fiskeldiskerjunum en þar nýta þau vatn úr bæjarlæknum í bleikjueldið en einnig til raforkuframleiðslu. Heimilisrafstöðin framleiðir 15 kílóvött af rafmagni og þar fæst orkan sem knýr heimilisbílinn.

Þeirra reynsla er að rafmagnsbílar séu ekki bara fyrir borgarbúa, þeir henti líka í sveitinni.
„Bara fyrir hvern sem er,“ segir Ragnhildur
„Ég allavega get ekki annað en mælt með svona rafmagnsbíl, því að viðhaldið er miklu miklu minna heldur en á venjulegum bílum,“ bætti Jónas við
Heldurðu að það verði langt í það að traktorarnir verði farnir að keyra á rafmagni hérna?
„Það styttist, ef batteríin verða nógu öflug þá getur þetta gengið,“ segir Ragnheiður.
„Já, ef þau verða nógu létt og öflug, það er eiginlega málið sko að létta þetta líka svolítið,“ segir Jónas.