Alvarleg umferðarslys og banaslys hafa orðið á Grindavíkurvegi. Lagfæringar á veginum eru gerðar í tveimur áföngum. Lokið var við þann fyrri á síðasta ári. Þá var vegurinn breikkaður annars vegar við Reykjanesbraut og hins vegar við veginn að Bláa lóninu. Seinni áfangi verksins hefur verið boðin út og bæjarstjórinn vonar að framkvæmdum á miðju vegarins frá Reykjanesbraut að Bláa lóninu ljúki fljótlega.
„Nú er það svona kaflinn sem kallaður er tveir plús einn vegur sem er framúrakstur og síðan í lokin í haust áður en hleypt verður fyrir umferð á fullbúnum veg verður sett vegrið á miðjan veginn sem kemur í veg fyrir hættulegustu slysin, það er að segja framanákeyrslurnar,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. Fannar segir að bílum hafi verið ekið utan í vegrið sem hafa verið sett upp beggja vegna vegarins.

Umferð á Grindavíkurveginum er mest á kaflanum frá Reykjanesbraut að Bláa lóninu.
Bæjarstjórinn vill að vegurinn frá lóninu inn í bæinn verði lagaður, sá kafli sé líka hættulegur. Ekki hefur fengist fjárveiting fyrir þessum hluta - en reynt verður að gera hann öruggari með öðrum hætti í fyrstu.
Búið er að setja upp hraðamyndavélar á tveimur stöðum á Grindavíkurveginum. Þessar myndavélar eiga að koma í veg fyrir að hraðakstur verði of mikill inn til Grindavíkur. Það er verið að prófa þær og stefnt að því að taka þær í notkun seinna í sumar.