Erlent

Fundu lík huldukonu fimm mánuðum eftir að hún lést í íbúð sinni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þá hefur VG eftir nágrönnum konunnar að hún hafi verið afar einræn. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Þá hefur VG eftir nágrönnum konunnar að hún hafi verið afar einræn. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Vísir/EPA
Kona, sem enginn virðist vita nokkur deili á, fannst nýlega látin í félagsíbúð í Osló. Talið er að konan hafi látist í febrúar og því lá lík hennar í íbúðinni í fimm mánuði áður en það fannst. Greint er frá málinu á vef norska dagblaðsins VG.

Í frétt VG er haft eftir talsmanni lögreglu í Osló að málið sé til rannsóknar hjá umdæminu sökum þess að enginn virðist vita nein deili á konunni. Ekki er þó talið að andlát hennar hafi borið að með saknæmum hætti.

Þá hefur VG eftir nágrönnum konunnar að hún hafi verið afar einræn og ekki átt í neinum samskiptum við nágranna sína. Nafn hennar hafi ekki verið á póstkassa hennar og engin í húsinu hafi vitað hvað hún hét.

Konan fékk jafnframt ekki félagsþjónustu frá borginni, sem hún hafði rétt á sem íbúi hússins. Fulltrúi borgaryfirvalda í Osló segir í samtali við VG að yfirvöld hefðu átt að sjá til þess að hún nyti þjónustunnar. Þá hefði enn fremur ekki liðið svo langur tími frá því að hún lést og þar til lík hennar fannst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×