Bandaríkjaforseti, Donald Trump hefur undirritað frumvarp sem gerir það að verkum að heilbrigðisþjónustusjóður, sem ætlaður er viðbragðsaðilum sem komu til aðstoðar eftir hryðjuverkaárásirnar í New York þann 11. September 2001, verði aldrei uppurinn. AP greinir frá.
Trump skrifaði undir frumvarpið í rósagarði Hvíta hússins ásamt yfir 60 viðbragðsaðilum. Frumvarpið gerir ráð fyrir fjárveitingum allt til ársins 2092.
„Þið veitið öllu mannkyni innblástur,“ sagði Trump og sagði viðbragðsaðilana vera sannar bandarískar hetjur.
Grynnkað hefur töluvert í sjóðnum á undanförnum árunum og hefði hann tæmst fengi hann ekki fjárveitinguna sem nú hefur verið veitt. Árið 2015 var frekari fjárveiting til fimm ára samþykkt á elleftu stundu þar sem Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, notaði fjárveitinguna sem samningatól til að semja um aðrar ótengdar fjárveitingar.
Sjónvarpsmaðurinn Jon Stewart var einn þeirra sem barðist fyrir fjárveitingunni og las þingmönnum pistilinn vegna áhugaleysisins.
Sjá einnig: Grátbólginn Jon Stewart las þingmönnum pistilinn
23. júlí síðastliðinn samþykkti Öldungadeildin loks frumvarpið sem var því vísað til forseta til undirritunar. 97 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu, en tveir á móti.