Samkomulagið felur í sér að útgjöld alríkisstjórnarinnar geta hækkað um 320 milljarða dollara og lögbundið skuldaþak verður fellt í gildi í tvö ár, að sögn Washington Post. Útgjöld til hersins verða meðal annars aukin. Þingið á enn eftir að samþykkja samkomulagið áður en nýtt fjárlagaár hefst í október.
Mikil átök á milli flokkanna hafa einkennt fjárlagagerð undanfarin ár. Þeim hefur mistekist að ná saman um hefðbundið fjárlagafrumvarp og því hefur rekstur alríkisstofnana verið fjármagnaðar með tímabundnum útgjaldafrumvörpum til nokkurra mánaða í senn.
Nokkrum sinnum hefur það gerst síðustu ár að rekstur alríkisstofnana stöðvist vegna þess að flokkunum auðnaðist ekki að ná saman um slík bráðabirgðaúrræði. Síðast gerðist það í desember þegar Trump forseti hafnaði málamiðlun sem flokkarnir á þingi höfðu gert til að knýja á um að hann fengi fjármuni fyrir múrnum sem hann vill reisa á landamærunum að Mexíkó. Sú stöðvun var sú lengsta í sögu Bandaríkjanna, rúmur mánuður.
Verði núverandi samkomulag samþykkt á þingi hyrfi hættan á sambærilegum átökum og mögulegri stöðvun alríkisstofnana út þetta kjörtímabil forsetans. Hópi repúblikana sem aðhyllast ráðdeild í ríkisrekstri gremst þó samkomulagið þar sem það eykur enn á fjárlagahalla ríkisins.
Ekki eru allir demókratar sannfærðir heldur. Þeir telja að forysta flokksins hefði átt að nýta viðræðurnar til að koma í veg fyrir að Trump haldi áfram að beina fjármunum hersins í landamæramúrinn. Það gerði Trump eftir að hann lýsti yfir neyðarástandi á landamærunum eftir að hann þurfti að lúta í lægra haldi í fjárlagadeilunum í vetur.
Trump tilkynnti um samkomulagið á Twitter í gær og lýsti ánægju með það.
„Þetta var raunveruleg málamiðlun til að gefa frábæra hernum okkar og uppgjafarhermönnum annan sigur!“ tísti forsetinn.
....This was a real compromise in order to give another big victory to our Great Military and Vets!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 22, 2019