Björgunarsveitir á Suðurlandi björguðu í gærkvöldi manni sem rann við klifur og festi fótinn milli steina í Goðahrauni nálægt Fimmvörðuhálsi.
Mbl hafði eftir Davíð Má Björgvinssyni upplýsingafulltrúa Landsbjargar í gær að björgunarsveitarmenn hefðu náð að koma manninum, sem er erlendur, upp af syllunni klukkan hálftólf. Maðurinn var um fimm klukkutíma á syllunni í mikilli þoku og var kaldur og hrakinn. Þá voru aðstæður á vettvangi erfiðar, miklar skriður og klettar auk þess sem þoka lá yfir svæðinu.
Davíð lýsti aðgerðum björgunarsveita jafnframt sem „tæknilega erfiðum“ í samtali við Mbl en í tilkynningu frá Landsbjörg kom fram að mögulega þyrfti að notast við sérstakan fjallbjörgunarbúnað til að ná manninum af syllunni.
Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna mannsins um klukkan sex í gær. Félagi mannsins tilkynnti um atvikið en maðurinn hafði hafði verið að klifra þegar hann rann niður á syllu og festi fótinn á milli steina. Maðurinn hlaut ekki sýnilega áverka en var þó kvalinn, að því er segir í tilkynningu.
Fimm hópar björgunarsveitafólks voru sendir upp Fimmvörðuháls á bílum og sexhjólum í átt að manninum.
Björguðu göngumanni úr sjálfheldu í flókinni aðgerð
Kristín Ólafsdóttir skrifar
