Þrettándu heimsleikarnir í CrossFit fara fram í Alliant Energy Center í Madison í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum en keppnin hófst í gær 1. ágúst og stendur til sunnudagsins 4. ágúst þegar við fáum að vita hver verða þau hraustustu í CrossFit heiminum árið 2019.
Vísir fylgist vel með heimsleikunum í Madison og hér verður bæði hægt að horfa á beina útsendingu frá leikunum sem og að sjá beina textalýsingu frá blaðamanni Vísis þar sem koma fram allar helstu upplýsingar um það sem er í gangi hverju sinni.
Allir íslensku keppendurnir fóru örugglega í gegnum niðurskurðinn í gær en fyrst var fækkað niður í 75 eftir fyrstu grein (úr 148 og 134) og svo niður í 50 eftir grein tvö. Anníe Mist Þórisdóttir er fremst af íslensku keppendunum en hún er í 2. sæti á eftir Karissu Pearce frá Bandaríkjunum. Katrín Tanja Davíðsdóttir er í 12. sæti eftir tvær greinar og Þuríður Erla Helgadóttir er síðan í sextánda sæti. Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir byrjaði ekki vel en er í 26.sæti og Oddrún Eik Gylfadóttir er í 32.sætinu. Björgvin Karl Guðmundsson er í 12. sæti hjá körlunum.
Hér fyrir ofan má sjá beina útsendingu frá keppni annars dagsins á heimsleikunum en fyrir neðan er síðan bein textalýsing frá blaðamanni Vísis. Sjónvarpsútsendingin hefst klukkan 14.30 en textalýsingin fer af stað klukkan 14.00.