Skoðun

Neyðarástand í loftslagsmálum er staðreynd

Rósa Björk Brynjólfsdóttir skrifar
Bréf leiðtoga breska Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, þar sem hann hvatti forsætisráðherra Íslands til að lýsa yfir neyðarástandi í loftlagsmálum, hefur vakið mikla athygli. Ekki að furða, vísindafólk hefur bent á að afleiðingar hlýnunar loftlags séu að koma fyrr fram en spáð hafði verið. Yfirstandandi sumar í Evrópu er eitt það heitasta sem mælst hefur, hitamet hafa fallið á Indlandi og víðar, í sumar höfum við séð hraðari bráðnun jökla á Grænlandi og í Himalajafjöllum en gert var ráð fyrir, skógareldar hafa geisað og flóð orðið vegna bráðnunar íss og jökla. Íbúar hafa hrakist  frá heimilum sínum á Kanaríeyjum, í Pakistan og þurrkar á Sahara-svæðinu eru farnir að hafa áhrif á för flóttafólks.

En af hverju að lýsa yfir neyðarástandi í loftlagsmálum? Er ekki nóg að tala nógu oft um loftlagsmálin og vinna að aðgerðum sem eiga að koma til framkvæmda á næstu áratugum ? Ekki alveg.

Carla Denyer, borgarfulltrúi Græningja í Bristol í Bretlandi var fyrsti kjörni fulltrúinn til að setja fram hugmyndina um að borgir eða landsvæði gætu lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Í nóvember sl. samþykkti borgarstjórn Bristol tillögu hennar um að borgin - sem telur fleiri íbúa en Ísland - viðurkenni neyðarástandið og skuldbindi sig til þess að ráðast í róttækari aðgerðir en áður var ákveðið, t.d. að borgin verði kolefnishlutlaus árið 2030. Aðrar borgir og landsvæði á Bretlandseyjum fylgdu í humátt á eftir Bristol og nú hefur breska þingið lýst yfir neyðarástandi vegna loftslagsbreytinga sem og skoska, írska og velska þingið. Fleiri borgir, svæði og önnur lönd hafa fylgt í kjölfarið.

Sum hafa verið ringluð og spurt hvort það breyti einhverju að lönd, borgir og þing lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Auðvitað þýðir það að miklu meiri áhersla, þungi og alvarleiki verður sett á málið og að allir viðkomandi aðilar skuldbindi sig til róttækari aðgerða en fyrirhugað var.

En er neyðarástand hér á Íslandi? Já. Því það hlýtur að teljast neyðarástand þegar jöklar á borð við Ok og Svínafellsjökull hverfa eða minnka á methraða, landris sem rekja má til hækkunar sjávarmáls er á leið að umbylta hafnarlægi líkt og á Höfn í Hornafirði, dýrategundir kollvarpa lífsháttum sínum og útblástur á hvern íbúa er hæstur á Íslandi af öllum Evrópulöndum. Undir þetta taka fjölmennustu umhverfissamtök landsins, Landvernd og formaður Loftslagsráðs.

Yfirlýsing um neyðarástand skilar ekki árangri ein og sér – heldur hvaða aðgerða verður gripið til í kjölfarið. Fylgi róttækar ákvarðanir slíkum yfirlýsingum, er von á breytingum.

Loftslagsmálin eru loksins komin á dagskrá stjórnmálanna, fyrsti áfangi aðgerðaráætlunar er kominn til framkvæmda og von er á uppfærðri aðgerðaáætlun. En til að takast á við neyðarástandið sem ríkir í  loftslaginu, verður að gera enn meira. Víðtækt samráð og samvinna við önnur Norðurlönd eins og ákveðið var á fundi norrænna forsætisráðherra er mjög gott og nauðsynlegt skref.

En við Íslendingar þurfum sjálf að taka stærri skref en við höfum gert. Við þurfum sannarlega að efla metnaðinn í loftlagsmálum eins og Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði eftir undirritun norrænu viljayfirlýsingarinnar. Við Íslendingar þurfum að taka föstum tökum á útblæstri frá stóriðju og flugi,  setja almenningssamgöngur í mestan forgang í samgöngumálum og setja  meira fjármagn hraðar í Borgarlínu, þora að leggja á græna skatta, mæla allar framkvæmdir og áætlanir hins opinbera út frá útblæstri og loftlagsmálunum, úthýsa þeim og því sem mengar, sleppa því að virkja á viðkvæmum náttúrusvæðum eða eyðileggja land fyrir stóriðju. Við megum nefnilega engan tíma missa.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna




Skoðun

Sjá meira


×