Erlent

Stefna á að ná myndskeiði af risasvartholinu í miðju Vetrarbrautarinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Myndin sem EHT náði af svörtum skugga sjóndeildar svartholsins í miðju gulleitrar efnisskífunnar sem umlykur það í miðju Messier 87-vetrarbrautarinnar.
Myndin sem EHT náði af svörtum skugga sjóndeildar svartholsins í miðju gulleitrar efnisskífunnar sem umlykur það í miðju Messier 87-vetrarbrautarinnar. EHT-samstarfið
Sami alþjóðlegi hópur vísindamanna og náði fyrstu myndinni af svartholi fyrr á þessu ári stefnir nú að því að ná myndskeiði í lit af risasvartholinu í miðju Vetrarbrautarinnar okkar. Til stendur að skjóta nýjum gervitunglum á loft og bæta við sjónaukum á jörðu niðri til að gera vísindamönnum kleift að mynda svartholið.

Net átta útvarpssjónauka víðsvegar á jörðinni voru notaðir til að fanga fyrstu myndina af svartholi sem vísindamennirnir birtu opinberlega í apríl. Það var risasvartholið í miðju Messier-87, risasporvöluvetrarbrautar í Meyjarþyrpingunni, sem í um 55 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Eðli málsins samkvæmt er sjálft svartholið ósýnilegt enda er svarthol fyrirbæri með svo mikinn þyngdarkraft að ekki einu sinni ljós sleppur úr greipum þess. Myndin sem náðist sýndi skugga svartholsins á skífu ofurhitaðs gass sem fellur inn í svartholið.

Nú vilja vísindamennirnir beina sjónum sínum nær heimahögunum, að risasvartholinu í okkar eigin vetrarbraut. Til þess þurfa þeir að bæta við sjónaukum á jörðu niðri og senda þrjá gervihnetti á loft. Hugmyndir eru um að reisa sjónauka á Grænlandi, Frakklandi og í Afríku, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Með því að sameina alla þessa sjónauka og gervihnetti eiga vísindamennirnir að geta náð „ofurskarpri“ mynd af risasvartholinu, að sögn Heino Falcke, prófessors við Radboud-háskóla í Hollandi, sem lagði til hugmyndina um Sjóndeildarsjónaukann (EHT).

Stjörnufræðingar telja að risasvarthol sé að finna í miðju flestra vetrarbrauta en lengi vel var tilvist svarthola aðeins kenning sem leiddi af afstæðiskenningu Alberts Einstein. Því var um veruleg tímamót að ræða þegar fyrsta myndin af svartholi var birt í vor.

„Þetta var ekki bara vísindalegt heldur tilfinningalegt. Ein manneskja sagði mér að hún hefði tárast. Það var svo ánægjulegt að vita að allir kunnu að meta og fagna því,“ sagði Falcke við BBC.






Tengdar fréttir

Ljósmynduðu svarthol í fyrsta skipti

Aldrei áður hafa vísindamenn fengið beinar sjónrænar vísbendingar um tilvist svarthola. Myndin sem tilkynnt var um í dag er sú fyrsta sinnar tegundar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×