Skoðun

Komdu í (loftslags)verkfall!

Eyrún Baldursdóttir skrifar
Á morgun munu ungmenni um allan heim fara í allsherjarverkfall fyrir loftslagið. Rúmt ár er liðið síðan Greta Thunberg fór í fyrsta verkfallið og hafa þúsundir ungmenna fylgt fordæmi hennar síðan þá. Hér á landi hafa íslensk ungmenni, allt frá grunnskólabörnum til háskólastúdenta, mætt á Austurvöll alla föstudaga síðan í febrúar og mótmælt aðgerðaleysi stjórnvalda í málaflokknum.

Nú er komin tími til að eldri kynslóðin hætti að fylgjast með á hliðarlínunni og styðji baráttu þeirra yngri í verki og taki þátt í verkfallinu á morgun. Það er ákall allsherjarverkfallsins að þau sem eldri eru láti sig málið varða, mæti á verkfallið og taki undir kröfuna um áhrifameiri aðgerðir stjórnvalda í baráttunni við loftslagsvána.

Það dugir ansi skammt að hrósa unga fólkinu fyrir eldmóðinn og segja það veita sér innblástur ef orðunum fylgja engar aðgerðir. Þau okkar sem fullorðin erum höfum nefnilega fleiri möguleika til þess að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda og knýja fram breytingar í samfélaginu en það eitt að fara í verkfall. Þess vegna þurfum við ykkar hjálp til þess að berjast fyrir betri framtíð en þeirrar sem við sjáum fram á ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða af hálfu stjórnvalda.

Ef þú styður ungt fólk í baráttunni þá hvet ég þig til þess að mæta á verkföllin, ræða loftslagsmál við vini og vinnufélaga, þrýsta á kjörna fulltrúa og nýta þinn lýðræðislega rétt til þess að kjósa breytingar í þágu loftslagsins og framtíðarinnar!

Ég verð á Austurvelli kl. 12 á morgun og við Hallgrímskirkju kl. 17. Hvar verður þú?

Höfundur er oddviti Röskvu í Stúdentaráði.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×