Biðinni löngu eftir Íslandsmeistaratitlinum hjá KR lauk loks eftir 0-4 sigur á Víkingi á Laugardalsvellinum í sautjándu og næstsíðustu umferð Landssímadeildarinnar, laugardaginn 11. september 1999.
Mikill fögnuður braust út meðal fjölmargra stuðningsmanna KR sem lögðu leið sína í Laugardalinn þegar Garðar Örn Hinriksson flautaði til leiksloka. Enda var sennilega þykkasta íshella íslenskrar íþróttasögu loks brotin.
Atli Eðvaldsson var þjálfari KR á þessum tíma og varð sá fyrsti til að koma með Íslandsmeistarabikarinn í Vesturbæinn síðan Austurríkismaðurinn Walter Pfeiffer afrekaði það 1968.
Atli lést á mánudaginn í síðustu viku og verður borinn til grafar á morgun. Á mánudaginn mætast gömlu liðin hans, Valur og KR, á Hlíðarenda og með sigri tryggir KR sér 27. Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins.

Kvennalið KR vann einnig tvöfalt og því vann KR alla fjóra stærstu titlana sem í boði voru í fótboltanum á 100 afmælinu.
KR komst á topp Landssímadeildarinnar í 4. umferð og lét toppsætið ekki af hendi eftir það. KR-ingar fóru langt með að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn með 3-0 sigri á Eyjamönnum í uppgjöri toppliðanna í 15. umferð. KR náði þá fimm stiga forskoti á toppnum.
Í 16. umferðinni vann KR Fram, 0-2, á Laugardalsvellinum. Það var því öruggt að KR myndi tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Víkingi á sama velli í næstsíðustu umferðinni. Og það gerðu KR-ingar.

Félagi Guðmundar í framlínu KR, Bjarki Gunnlaugsson, skoraði tvö mörk með tveggja mínútna millibili undir lokin. Þórhallur Hinriksson átti svo síðasta orðið þegar hann skoraði fjórða mark KR-inga tveimur mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 0-4, KR í vil.
KR-ingar, ungir sem aldnir, fögnuðu vel og innilega í leikslok. KR fékk svo Íslandsmeistarabikarinn afhentan eftir 3-2 sigur á Keflavík í lokaumferðinni.
20 ár uppá dag, Íslandsmeistari undir stjórn Atla Eðvalds. pic.twitter.com/D7nRpKSAH6
— Gummi Ben (@GummiBen) September 11, 2019