Ökumaður bifreiðar sem olli alvarlegu umferðarslysi við Hellisheiðarvirkjun þann 1. febrúar síðastliðinn var í Héraðsdómi Suðurlands á miðvikudag dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi.
Þá var ökumanninum gert að greiða allan sakarkostnað, samtals um fjörutíu þúsund krónur, og sviptur ökuréttindum í þrjá mánuði frá birtingu dómsins.
Sjá einnig: Slasaðist alvarlega er hann hugðist draga bíl sem var fastur í snjó
Ökumanninum var gefið að sök að hafa ekið bifreið sinni austur Suðurlandsveg á móts við Hellisheiðarvirkjun of hratt miðað við aðstæður, þar sem skyggni var afar takmarkað sökum veðurs, auk þess sem snjór og hálka var á veginum.
Þá hafi hann jafnframt ekki sýnt nægjanlega aðgæslu þannig að hann missti stjórn á bifreiðinni og ók aftan á aðra bifreið, sem sat föst í snjóskafli við vegöxlina með þeim afleiðingum að sú bifreið hentist áfram og á þriðju bifreiðina, sem var kyrrstæð.
Gangandi vegfarandi, sem var ökumaður kyrrstæðu bifreiðarinnar og hugðist draga bílinn sem var fastur í skaflinum, klemmdist á milli bifreiðanna og hlaut margþætt opið beinbrot á hægri sköflungi, að því er segir í dómi.
Í dómi kemur jafnframt fram að ákærði hafi ekki mætt við þingfestingu málsins. Þá hafi þótt sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefið að sök.
