Vinsældir lárperunnar hafa aukist hratt á undanförnum árum. Áætlað er að neysla ávaxtarins hafi fjórfaldast í Bandaríkjunum frá aldamótum og skyldi engan undra.
Þroskað avókadó þykir af mörgum mjög bragðgott og þá benda rannsóknir til þess að avókadó innihaldi hjartvænar fitur, geti hjálpað við þyndarstjórnun lækkað kólesteról. Lárperuát hefur þó endað illa hjá sumum sem enda á bráðamóttökunni eftir að hafa ætlað að gæða sér á ávextinum.
Síðustu misseri hefur verið fjallað um svokölluð avókadóslys á erlendum miðlum. Í síðasta mánuði sagði Bandaríski miðilinn Insider frá því að árlega væru 8900 komur á bráðamóttökur í Bandaríkjunum vegna avókadóslysa. Það gera 24 slys á dag.

„Við höfum séð nokkuð af avókadóslysum þar sem fólk sker sig eftir að hafa opnað avókadó,“ segir Jón Magnús Kristinsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans. Þetta komi ekki upp daglega, en starfsmenn bráðamóttökunnar þekki vel til þessara slysa.
„Yfirleitt fer þetta þannig fram að viðkomandi heldur á avókadó í annarri hendi og hnífurinn hrekkur til í lófa eða fingur viðkomandi,“ segir Jón Magnús.
Þá gerast alvarlegustu slysin þegar fólk stingur í steininn í þeim tilgangi að fjarlægja hann. „Það má fara gætilega við að skera avókadó og annað,“ segir Jón Magnús.