Edda kom stuttlega inná þessa stefnu bankans í pistli sem hún birti á Vísi í vikunni en í niðurlagi hans fléttar hún karlmönnum og plasti saman.
„Við gefum ekki börnum plastvörur fyrir að spara heldur aukum við skemmtilega upplifun, við forðumst að kaupa þjónustu af fyrirtækjum sem fylla herbergið aðeins af karlmönnum, við prentum ekki skýrslur og við kveðjum auglýsingar hjá fjölmiðlum sem bjóða upp á afgerandi kynjahalla.“
Herör Íslandsbanka gegn plasti og karlmönnum
Edda hlær við þegar hún er spurð hvort bankinn vilji skera upp herör gegn plasti og karlmönnum?„Í grófum dráttum. En, nei. Bankinn tók upp fjögur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem hann er að vinna eftir. Og núna erum við að sýna það í verki hvernig við ætlum að gera það. Lítil skref í þessa átt.“

„Kröfurnar sem við setjum eru þær að ef um mikinn kynjahalla er að ræða þá viljum við gera athugasemdir við það. Við erum búin að flagga við þá aðila. Við ætlum ekki að gefa það upp hverjir það eru. En, við erum að taka upp gögn og erum í viðræðum um það.“
Viðskiptaþvinganir ábyrgs banka
En, eru þetta þá einhvers konar viðskiptaþvinganir eða boycott?„Ef menn vilja orða það svo. En bankinn er bara fyrirtæki sem vill stunda viðskipti við þá sem stunda góða viðskiptahætti.“

„Við erum að kalla eftir upplýsingum bæði er varðar þáttastjórnendur, sem eru þá starfsmenn og líka varðandi viðmælendur þegar og þar sem verið er að mæla fjölda karla og kvenna í þáttagerð. Við erum að taka saman þær tölur núna til að meta hvernig kynjahlutfallið er. Á sumum stöðum eru fáar sem engar konur meðal starfsmanna. Reyndar líka ef litið er til viðmælenda, þá er oft um mjög fáar konur að ræða.“
Skráning viðmælenda í fjölmiðlum
Edda vill ekki gefa upp hvaða fjölmiðlar eru undir hæl bankans í þessum efnum en fyrir liggur að Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur verið með þessi mál til sérstakrar athugunar.Þá hefur því verið haldið fram að sérstakar skráningar á kyni viðmælenda þyki nú sjálfsagt mál og eðlilegt í alla staði. Í nýlegri umfjöllun Morgunblaðsins þar sem greint er frá slíkri skráningu á kynjahlutfalli kemur fram að RÚV hafi haldið samræmda skráningu á kynjahlutfalli viðmælenda í þrjú ár og birt opinberlega á þriggja mánaða fresti.

RÚV sleppur sennilega
Það má því búast við því að RÚV muni enn um sinn njóta viðskipta Íslandsbanka en erfiðara er um aðra miðla að fjölyrða svo sem Bylgjuna og X-ið, svo dæmi séu nefnd. Edda segir að þetta verði ekki gert á einum degi en nú sé kominn tími á að hætta að tala og fara að framkvæma.„Við munum ekki gera þetta á einum degi, þetta er ferli þar sem við erum búin að flagga því að við sem ábyrgur banki viljum aðeins eiga í viðskiptum við fyrirtæki þar sem þessi sjónarmið eru virt. Við setjum fram þá kröfu að það séu konur en ekki bara karlar hjá þeim fyrirtækjum sem við eigum í viðskiptum við.“
Spurð hvort þetta eigi einnig við um fyrirtæki sem eru frá fornu fari karllæg svo sem bifreiðarverkstæði segir hún að það sé til athugunar hjá rekstrardeildinni. Þetta sé það sem að markaðsdeildinni snúi.