Hlutfallið á yfirstandandi ári er 48,6 prósent samkvæmt tölum sem Fréttablaðið aflaði frá Þjóðskrá hinn 13. nóvember síðastliðinn.
Árið 2003 voru 3.446 börn af 4.135 skráð í þjóðkirkjuna eða rúm 83 prósent. Næstu ár á eftir lækkaði hlutfallið um eitt til tvö prósent á ári til ársins 2013. Þá tók skráningum barna að fækka meira. Fækkunin milli áranna 2012 og 2013 var sex prósent; fór úr 69,2 prósentum árið 2012 niður í rúm 62 prósent 2013.
Í janúar 2013 tók gildi breyting á ákvæði um skráningu barna í trúfélög við fæðingu í lögum um skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Fram til þess tíma var barn sjálfkrafa skráð í það trúfélag sem móðir þess tilheyrði við fæðingu barnsins.
Gagnrýnt hafði verið, meðal annars af Jafnréttisstofu að umrætt fyrirkomulag, að móðerni réði til hvaða trúfélags barn heyrði frá fæðingu, bryti í bága við jafnréttislög. Þar að auki væri örðugt að sjá hvaða hagsmunum það þjónaði fyrir nýfætt barn eða aðra að það væri skráð sjálfkrafa í trúfélag við fæðingu.

Sjálfsákvörðunarréttur um skráningu í trúfélag verður samkvæmt lögunum til við 16 ára aldur. Fram að þeim aldri getur forsjárforeldri barns tekið ákvörðun um breytingu á skráningu þess. Ef foreldrar fara með sameiginlega forsjá taka þeir ákvörðun sameiginlega. Við tólf ára aldur ber að leita álits barnsins sjálfs áður en það er skráð úr trú- eða lífsskoðunarfélagi og eftir atvikum skráð í annað.
Fjöldi meðlima í trú- og lífsskoðunarfélögum ræður fjárhæð sóknargjalda þeirra úr ríkissjóði. Sóknargjöld hvers árs miðast við skráningu í félög eins og hún er 1. desember árið á undan. Þannig miðast greiðsla sóknargjalda til skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga árið 2020 við fjölda meðlima í hverju og einu þeirra eins og hann er 1. desember næstkomandi, sem er næstkomandi sunnudagur.
Með viðbótarsamkomulagi ríkisins við þjóðkirkjuna skuldbindur ríkisstjórnin ríkið til að greiða þjóðkirkjunni 3,45 milljarða á ári hverju, fyrir utan sóknargjöld sem kirkjan fær á grundvelli fjölda meðlima. Með samkomulaginu er horfið frá því fyrirkomulagi að ríkið greiði tilteknum fjölda starfsmanna kirkjunnar laun og fer kirkjan nú með sjálfdæmi um starfsmannamál sín.
Samkomulagið er ótímabundið. Í því er sérstaklega kveðið á um að hvorugur samningsaðila geti borið fyrir sig fjölgun eða fækkun á meðlimum þjóðkirkjunnar sem leiða kunni af mögulegum breytingum á lögum eða reglum um skráningu í trúfélög eða á framkvæmd skráninga.