Úrskurðað hefur verið að réttarhöldin yfir fangavörðunum Tova Noel og Michael Thomas, muni hefjast 20.apríl næstkomandi í New York. Noel og Thomas eru sakaðir um að hafa vanrækt að líta með reglubundnum hætti eftir fanganum Jeffrey Epstein 10. ágúst síðastliðinn, daginn sem Epstein fannst látinn í klefa sínum. AP greinir frá.
Sjá einnig: Jeffrey Epstein framdi sjálfsvíg í fangelsi
Mál bandaríska auðkýfingsins, sem ákærður var fyrir mansal og misnotkun á tugum stúlkna, hefur verið mikið í umræðunni, upp hafa sprottið kenningar um að Epstein hafi í raun og veru verið myrtur til þess að hylma yfir með vinum hans, valdamiklum mönnum á borð við Andrés Bretaprins, Bill Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforseta og núverandi forseta, Donald Trump.
Réttarmeinafræðingur staðfesti skömmu eftir andlát Epsteins að um sjálfsvíg hafi verið að ræða. Fangaverðirnir Noel og Thomas eru sagðir hafa sleppt innliti til Epsteins í þrjá klukkutíma þann 10. ágúst og eru sagðir hafa logið til um athuganir sýnar á vaktaskýrslu. Epstein hafði verið á sjálfsvígsvakt í fangelsinu en í júlí hafði hann fundist hálfmeðvitundarlaus í klefa sínum með áverka á hálsi.
Mennirnir hafa neitað sök í málinu, lögfræðingar fangavarðanna segja þá Noel og Thomas vera blóraböggla fyrir hrapallegt ríkisfangelsiskerfið.
