Óhætt er að segja að foreldrar barna á Seltjarnarnesi sem bíða eftir daggæslu- eða leikskólaplássi fyrir börnin sín finnist jólagjöfin frá bænum súr þetta árið. Þeim barst bréf í vikunni þar sem þeim er tilkynnt að frá og með áramótum leggist af heimgreiðslur til foreldranna.
Í bréfinu er vístað til þessað fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2020 hafi verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 11. desember. Jafnhliða samþykktinni falli samþykkt um heimgreiðslur til foreldra barna á biðlista eftir daggæslu eða leikskólaplássi úr gildi. Greiðslur leggist af frá og með 1. janúar.
Mánaðarleg heimgreiðsla til hjóna/sambúðarfólks með börn sem eru að bíða eftir plássi var samþykkt á Nesinu í mars 2018. Þær miðuðust við niðurgreiðslu sem annars færi til dagforeldris og námu 66 þúsundunum króna.
Fyrirvarinn afar lítill
Ljóst er af umræðum í hópnum Íbúar á Seltjarnarnesi að tíðindin koma sem köld vatnsgusa í andlit foreldranna sem hafi í sumum tilfellum verið byrjaðir að skipuleggja fjárhag næsta árs. Þá sé fyrirvari upp á tvær vikur hlægilega lítill. Eitt foreldri lýsir því að hafa fengið umsókn um heimgreiðslu samþykkt fyrir nokkrum dögum og ekkert hafi verið minnst á fyrirhugaðar breytingar.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar sem er í minnihlutanum úti á Nesi, segir niðurstöðuna alveg óþolandi og hluta af niðurskurðaráætlun bæjarins fyrir næsta ár.
„Það eru líka komin bréf til okkar sem eru með barn hjá dagforeldri um að mótframlög bæjarins eigi að lækka um tæpar 20 þúsund krónur á mánuði,“ segir Guðmundur Ari.
Samræma viðbrögð
„Foreldrar ungra barna sem eignuðust þau á „vitlausum“ tíma ársins og komast því ekki inn í leikskólann fyrr en ári seinna eru greinilega þau sem eiga að leggja harðast að sér til að borga fyrir taprekstur bæjarins.“
Kaldhæðnin í þessu sé líka sú að þessar aðgerðir komi frá Sjálfstæðisflokknum sem hafi lofað að byggja leikskóla fyrir öll börn á Nesinu frá 1 árs aldri og taka tvisvar á ári inn í skólann.
Foreldrar barnanna virðast ætla að samræma viðbrögð í málinu og hafa stofnað Facebook-hóp til að ræða málin sín á milli.