Fótbolti

Cannavaro fann til með Van Dijk

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Virgil van Dijk.
Virgil van Dijk. Vísir/Getty

Fabio Cannavaro kveðst hafa fundið til með hollenska varnarmanninum Virgil Van Dijk þegar hann hafnaði í 2.sæti í kjöri á besta fótboltamanni heims 2019.

Cannavaro er einn af fáum varnarmönnum í knattspyrnusögunni til að hljóta Gullboltann og sá eini á þessari öld en Cannavaro vann Gullboltann árið 2006. Síðan þá hafa Lionel Messi eða Cristiano Ronaldo alltaf unnið ef frá er talið 2007 (Kaka) og 2018 (Luka Modric).

Van Dijk átti frábært ár í fyrra og var talinn líklegur til að feta í fótspor Cannavaro en þurfti að horfa á eftir Gullboltanum til Messi. Van Dijk varð annar í kjörinu og Ronaldo þriðji.

„Ég sendi Van Dijk skilaboð til að óska honum til hamingju með silfrið. Sem varnarmaður er mjög erfitt að vinna þessi verðlaun. Það er ekki nóg að sýna frábæra frammistöðu og vinna titla,“ segir Cannavaro.

„Þú verður líka að vera heppinn til að hafa ekki framherja eins og Ronaldo eða Messi fyrir framan þig. Það er lykillinn. Þeir tveir hafa alltaf forskot í svona kosningu,“ segir Cannavaro.

Aðeins hafa fjórir varnarmenn náð inn í þrjú efstu sætin á þessari öld. Auk Cannavaro og Van Dijk eru það Roberto Carlos og Paolo Maldini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×