Körfubolti

Máttu ekki mynda Michael Jordan á hans eigin heimili fyrir „The Last Dance“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan passar upp á það að halda sínu einkalífi frá fjölmiðlum.
Michael Jordan passar upp á það að halda sínu einkalífi frá fjölmiðlum. Getty/Brian Bahr /Allsport

Margir hafa eflaust velt því fyrir sér og ályktað sem svo að viðtölin við Michael Jordan í „The Last Dance“ séu tekin á heimili hans. Svo er þó ekki.

Michael Jordan sagði nefnilega þvert nei þegar leikstjóri þáttanna ætlaði að taka upp viðtölin við Jordan á hans eigin heimili. Það kom ekki til greina.

Það er samt auðvelt að ímynda sér það að viðtölin við Michael Jordan séu tekin upp á heimili hans enda um sannkallað lúxushús að ræða. Upphafsatriðið sýnir það vel. Þetta er samt ekki sama húsið.

Lausnin var því að taka viðtölin við Jordan upp á þremur mismunandi stöðum en enginn þeirra var hans eigið heimili.

Upptökustaðirnir voru allir nálægt heimili Michael Jordan í Jupiter í Flórída fylki.

Ástæðan fyrir að upptökustaðirnir voru þrír var vegna þess að Jason Hehir, leikstjóri „The Last Dance“, náði ekki að taka upp allt efnið með Michael Jordan í einni lotu. Hann þurfti því að hitta Jordan þrisvar og því má oft líka sjá Jordan bregðast við því sem aðrir leikmenn eða þjálfarar höfðu sagt um hann í öðrum viðtölum vegna þáttanna.

Heimili Jordan í Jupiter er í raun hluti af golfvallarsvæði The Bear's Club. Húsið er á þriggja ekra lóð og er sjálft 8500 fermetrar af stærð. Það eru átján byggingar á lóðinni og þar á meðal tveggja hæða bygging fyrir vörðinn. Að sjálfsögðu er fullkominn líkamsræktarstöð og körfuboltavöllur í einum endanum og í raun allt til alls í þessari ellefu herbergja villu.

„Hann vildi ekki að fólk sæi þetta allt saman. Ég bar virðingu fyrir það og gaf eftir hvað þetta varðar,“ sagði Jason Hehir í viðtali við Insider.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×