Erlent

Nýr Marsjeppi fær nafnið „Þrautseigja“

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá fyrsta akstursprófi Perseverance-jeppans í desember. Til stendur að skjóta jeppanum á loft í sumar.
Frá fyrsta akstursprófi Perseverance-jeppans í desember. Til stendur að skjóta jeppanum á loft í sumar. AP/J.Krohn/NASA

Tilkynnt var um úrslit í nafnasamkeppni á næsta könnunarjeppa bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA sem á að senda til Mars í gær. Jeppinn hlaut nafnið „Þrautseigja“ [e. Perseverance] að tillögu grunnskólanema.

Fram að þessu hefur nýi Marsjeppinn aðeins verið þekktur undir heitinu Mars 2020. Alls bárust 28.000 tillögur og voru níu á endanum valdar til úrslita, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Sigurvegarinn var Alexander Mather, þrettán ára skólastrákur frá Virginíu í Bandaríkjunum sem lagði til nafnið „Perseverance“.

Tillaga Mather er í anda nafna á fyrri könnunarjeppum sem hafa verið sendir til Mars og sem hann sagði lýsandi fyrir atgervi manna eins og Forvitni [e. Curiosity], Innsæi [e. Insight], Dugur [e. Spirit] og Tækifæri [e. Opportunity].

Til stendur að skjóta Perseverance á loft á milli 17. júlí og 5. ágúst. Jeppinn er kominn í Kennedy-geimmiðstöð NASA á Canaveral-höfða til undirbúnings fyrir geimskotið. Ferðin til rauðu reikistjörnunnar tekur sjö mánuði og er lending þar áætluð klukkan hálf níu fimmtudagskvöldið 18. Febrúar á næsta ári.


Tengdar fréttir

Skarpasta myndin af yfirborði Mars til þessa

Aldrei áður hefur verið tekin mynd í eins hárri upplausn af yfirborði Mars og sú sem bandaríska geimvísindastofnunin NASA birti í gær. Könnunarjeppinn Curiosity tók yfir þúsund myndir í vetur sem voru notaðar til að setja myndina saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×