Fótbolti

Valdi framlínu Man. Utd fram yfir Mane, Salah og Firmino

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tevez, Rooney og Ronaldo fagna marki í Meistaradeildinni gegn Celtic þetta tímabilið.
Tevez, Rooney og Ronaldo fagna marki í Meistaradeildinni gegn Celtic þetta tímabilið. vísir/getty

Gary Neville, sparkspekingur hjá Sky Sports og fyrrum leikmaður Manchester United, segir að Wayne Rooney, Cristiano Ronaldo og Carlos Tevez hafi skapað bestu þriggja manna framlínu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Rooney, Ronaldo og Tevez spiluðu saman hjá Manchester-liðinu á árunum 2007 til 2009 en liðið varð meðal annars enskur meistari í tvígang og vann Meistaradeildina á þessu tímabili.

Sadio Mane, Roberto Firmino og Mo Salah hafa eðlilega fengið mikið hrós undanfarin tvö ár hjá Liverpool og margir talað um þá sem bestu þriggja manna framlínuna en þeir hafa saman skorað 38 mörk í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Neville er ekki sammála og valdi sína menn frá Manchester.

„Það var svo hrífandi að horfa á Tevez með Rooney og Ronaldo. Það voru ekki bara gæði leikmannanna heldur einnig öll ákefðin,“ sagði Neville við The Football Show á Sky Sports í gærkvöldi.

„Ronaldo er öðruvísi á vellinum. Hann hleypur ekki um og sparkar menn niður heldur var hann bara góður á meðan Rooney og Tevez voru baráttumenn en einnig með ótrúlega hæfileika og það var eitthvað við þessa þrjá.“

„Þetta er besta framlínan í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Þú munt aldrei hafa betur gegn þessum þremur að mínu mati. Þú getur talað um Mane, Salah og Firmino og ég elska þá og Sterling, Aguero og Sane hjá City en þegar þú horfir á Tevez, Ronaldo og Ronaldo á þeirra hátindi þá var voru þeir ekki í þessum heimi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×