Fótbolti

Ndombele íhugar framtíð sína hjá Tottenham eftir æfinguna með Mourinho

Anton Ingi Leifsson skrifar
Samband Mourinho og Ndombele er ekki upp á tíu.
Samband Mourinho og Ndombele er ekki upp á tíu. vísir/getty

Franski fjölmiðillinn L’Equipe segir að framtíð Tanguy Ndombele hjá Tottenham sé óráðin. Hann sé ekki sáttur með framkomu Jose Mourinho stjóra félagsins gagnvart sér og ekki skánaði ástandið eftir atvikið fyrr í mánuðinum.

Flestir leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar æfa einir þessa daganna vegna kórónuveirunnar; ýmist heima hjá sér eða þeir fari einir út að hlaupa enda mega liðin ekki æfa saman og heldur ekki tveir og tveir leikmenn saman.

Það sást svo til Ndombele og Mourinho saman í almenningsgarði fyrr í mánuðinum þar sem Mourinho lét Frakkann gera ýmsar æfingar. Þetta ku ekki hafa fallið vel í kramið hjá Frakkanum sem er afar ósáttur við meðferð Mourinho á sér.

Í síðasta mánuði, áður en enski boltinn var settur á ís, þá tók Mourinho Frakkann útaf í hálfleik gegn Burnley og sagði að hann þyrfti að fara gera mun betur. Frammistaða hans væri ekki boðleg í enska boltanum og svo fylgdi þetta atvik í almenningsgarðinum þar á eftir.

Ndombele var keyptur til Tottenham síðasta sumar frá Lyon en hann kostaði rúmlega 50 milljónir punda. Hann á sex A-landsleiki fyrir Frakkland en hefur átt erfitt með að fótfesta sig í enska boltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×