Hvað verður um hin fjölmennu barnamót í fótbolta sem leikin eru víða um land á sumrin? Geta þau farið fram þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins? Guðni Bergsson, formaður KSÍ, var spurður út í málið í Sportinu í dag.
Samkvæmt minnisblaði sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra mun talan 2.000 geta komið til með að vera ákveðið viðmið fyrir samkomur í sumar. Fleiri hafa safnast saman á stærstu barnamótunum í fótbolta, ekki síst ef aðstandendur iðkenda eru taldir með.
„Ég veit að félögin eru að fara yfir þetta og ég held að þau ætli sér að fara yfir það með yfirvöldum hvaða möguleikar séu í stöðunni. Hvernig hægt sé að breyta framkvæmdinni og vera með hana þannig að þetta sé innan ramma þessara sóttvarnaúrræða. Vonandi verður hægt að finna einhverjar útfærslur á því þannig að það verði hægt að halda flest þessara móta, þó að það verði kannski með breyttu sniði. Þetta er eitthvað sem liggur fyrir að við þurfum að finna lausn á,“ sagði Guðni.
„Ef fram heldur sem horfir þá verður kannski gefinn meiri slaki í lok júní eða byrjun júlí þannig að þetta mun taka einhverjum breytingum þegar komið verður inn í sumarið, geri ég ráð fyrir. Við þurfum að sjá hvernig þetta allt saman spilast og gerum þetta allt að sjálfsögðu í góðri samvinnu við yfirvöld,“ sagði formaðurinn, en innslagið má sjá hér að neðan.
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.