Grænlensk stjórnvöld afnámu í gær áfengissölubannið sem sett var á í Nuuk og nágrannabyggðum í lok marsmánaðar en bannið stóð í átján daga. Góður árangur Grænlendinga í baráttunni gegn kórónufaraldrinum er þannig að skila sér í enn frekari tilslökunum.
Mikla athygli vakti þegar landlæknir Grænlands skýrði frá því þann 8. apríl síðastliðinn að öllum þeim ellefu einstaklingum, sem greinst höfðu með covid 19, væri batnað og að engin ný smit hefðu greinst í landinu. Í dag gat svo landlæknir greint frá tólfta smitlausa deginum í röð. Síðasta smitið á Grænlandi greindist þann 4. apríl en alls hafa 1.019 manns verið skimaðir þar fyrir veirunni.

Lögreglan í Nuuk ákvað í varúðarskyni að vera með aukamannskap á vakt þegar opnað var á sölu áfengis á ný klukkan 10 í gærmorgun. Vandræðin byrjuðu raunar strax um morguninn við matvöruverslanir sem selja áfengi því fólk stóð allt of þétt í biðröðunum og virti ekki reglur um lágmarks aðskilnað, að því er fréttamiðillinn Sermitsiaq hefur eftir lögregluvarðstjóra.
„Ofbeldi, skemmdarverk og göturóstur,“ segir í fréttinni en alls skráði lögreglan sextíu atvik í gær, þar af 47 tengd áfengisneyslu, sem þykir ansi mikið í miðri viku í 18 þúsund manna bæ. Þess utan þurfti lögreglan að sinna nokkrum útköllum á heimili.
Sem dæmi nefnir lögregluvarðstjórinn að kona hafi verið handtekin fyrir skemmdarverk eftir að hún braut nokkrar rúður. Síðan hafi hún bitið lögreglumann í handlegginn, sem þýðir að hún verði einnig kærð fyrir brot gegn valdsstjórninni fyrir að ráðast á lögreglumann að störfum.
Á Grænlandi er áfengi selt í matvöruverslunum, eins og sjá mátti í þætti Stöðvar 2 frá Nuuk í janúar 2017: