Fótbolti

Ungstirni Chelsea greinist með kórónuveiruna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hudson-Odoi í bikarleik með Chelsea fyrr á þessu tímabili.
Hudson-Odoi í bikarleik með Chelsea fyrr á þessu tímabili. Vísir/Getty

Callum Hudson-Odoi, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea, hefur verið greindur með kórónuveiruna COVID-19. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar kemur einnig fram þeir meðlimir Chelsea-liðsins sem hafa verið í samskiptum við leikmanninn séu nú í sóttkví. Það á við um allan eikmannahóp liðsins, þjálfara og einhverja úr hópi annarra starfsmanna félagsins.

Gert er ráð fyrir að þau sem ekki hafa verið í nánum samskiptum við Hudson-Odoi muni snúa aftur til vinnu hjá félaginu fljótlega. Nú hefur húsi karlaliðs Chelsea á æfingasvæði félagsins verið lokað tímabundið vegna smitsins.

„Callum sýndi einkenni svipuð þeim og koma fram við vægt kvef á mánudagsmorgun, og hefur ekki mætt á æfingasvæðið síðan þá, í öryggisskyni. Hann greindist með kórónuveiruna í kvöld og fer hann því nú í sóttkví,“ segir í tilkynningu frá Chelsea.

Þar kemur einnig fram að þessum 19 ára kantmanni heilsist vel og að hann hlakki til að snúa aftur á æfingasvæðið um leið og auðið er.

Í gærkvöldi var einnig greint frá því að Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, hefði greinst með veiruna, og að stór hluti leikmanna- og starfsmannahópa Arsenal væri í sóttkví.

Það liggur því fyrir að kórónuveiran er farin að setja verulegt strik í reikninginn hvað varðar framvindu ensku úrvalsdeildarinnar, og ljóst að hvorki Chelsea né Arsenal koma til með að geta spilað á næstunni.


Tengdar fréttir

Arteta með kórónuveiruna

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, er með kórónuveiruna. Þetta staðfesti Lundúnarfélagið í yfirlýsingu sem þeir birtu nú undir kvöld á miðlum félagsins.

Neyðar­fundur hjá ensku úr­vals­deildinni á morgun

Enska úrvalsdeildin hefur gefið frá sér aðra yfirlýsingu í kvöld. Sú fyrri hljóðaði þannig að spilað væri um helgina en eftir að Mikel Arteta greindist með kórónaveiruna verður haldinn neyðarfundur á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×