Lögreglan í Morgan-sýslu í Alabama í Bandaríkjunum fann í morgun sjö látnar manneskjur í húsi í bænum Valhermoso Springs. Talið er að fólkið, sem allt var fullorðið, hafi verið skotið til bana.
Þetta kemur fram á vef Waff-48, sem er undirmiðill NBC-samsteypunnar í Bandaríkjunum. Þar segir að viðbragðsaðilar hafi fengið útkall vegna skothljóða.
Lögreglan segir í Facebook-færslu að málið sé rannsakað sem morð, og að Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, komi að rannsókninni. Eins segir að rannsóknarvettvangur hafi verið tryggður og að ekki sé talið að almenningur í nágrenninu þurfi að óttast um öryggi sitt vegna málsins.
Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins að því er fram kemur í færslu lögreglunnar og enginn er grunaður. Þá hafa nöfn hinna látnu ekki komið fram.