Írani sem sagður er hafa útvegað leyniþjónustum Bandaríkjanna og Ísrael upplýsingar um ferðir hershöfðingjans Qassem Soleimani, sem felldur var í loftárás í byrjun janúar, verður tekinn af lífi. Yfirvöld Íran sendur frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem segir að maðurinn, sem kallaður er njósnari fyrir CIA og Mossad, hafi verið dæmdur til dauða.
Maðurinn dauðadæmdi heitir Mahmoud Mousavi Majd en að öðru leyti veitti Gholamhossein Esmaili, talsmaður dómsmálaráðuneytisins, litlar upplýsingar um hann. Sömuleiðis liggur ekki fyrir hvenær Majd verður tekinn af lífi. Það mun þó verða innan skamms, samkvæmt frétt Times of Israel.
Soleimani var yfirmaður sérsveita íranska byltingarvarðarins og stýrði Quds-sveitum Íran, sem eru þær sveitir hersins sem starfa utan landamæra ríkisins. Hann var í raun einn valdamesti maður landsins.
Hershöfðingjar Bandaríkjanna segja Soleimani hafa um árabil herjað á Bandaríkin og bandamenn þeirra í Mið-Austurlöndum. Hann hafi borið ábyrgð á dauða bandarískra hermanna allt frá 2003 þegar Bandaríkin gerðu innrás í Írak. Hann hafi hjálpað skæruliðum þar í landi að smíða sprengjur sem notaðar voru gegn bandarískum hermönnum.
Hann var felldur í loftárás, skömmu eftir að hann lenti í Írak þann 3. janúar.
Esmaili tengdi þær upplýsingar sem Majd á að hafa veitt CIA Mossad beint við dauða Soleimani og sagði ekki hvaða upplýsingar njósnarinn svokallaði á að hafa veitt.
Íranir hefndu fyrir dauða Soleimani með því að skjóta eldflaugum að bandarískri herstöð í Íran. enginn féll í árásinni en margir hermenn hlutu heilaáverka vegna árásarinnar. Sama kvöld, skutu Íranir niður úkraínska farþegaþotu fyrir slysni.