Innlent

Framhaldsskólanemar vonsviknir með frumvarp um Menntasjóð

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra lagði frumvarpið fram.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra lagði frumvarpið fram. Vísir/Vilhelm

Samband íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, lýsir yfir vonbrigðum með að frumvarp menntamálaráðherra um Menntasjóð námsmanna hafi verið samþykkt á Alþingi í gær án þess að komið væri til móts við bóknámsnemendur í framhaldsskólum, það er að segja þá sem stunda nám til stúdentsprófs.

Í yfirlýsingu segir að félagið telji að með þessu hafi ráðamenn tekið meðvitaða ákvörðun um að mismuna nemendum á grundvelli námsvals og sagt að undanfarna mánuði hafi ítrekað verið bent á að bóknámsnemendur á öllum hinum Norðurlöndunum fái fjárhagslegan stuðning frá stjórnvöldum, ýmist í formi styrkja og/eða lána .

Ljóst sé að þingmenn hafa ekki litið til þeirra ábendinga né heldur tekið inn í myndina að brottfall nemenda á Íslandi er umtalsvert hærra en á hinum Norðurlöndunum og hærra en meðaltalið í Evrópu. Þykir félaginu ráðamenn vera að skilja bóknámsnemendur í framhaldsskóla eftir úti í kuldanum og það á tímum þegar nemendahópnum bjóðist afar takmörkuð úrræði, sérhæft sumarnám eða rándýrt fjarnám, atvinnuleysi og enginn réttur til bóta.

Þá telur SÍF að lögin skorti sveigjanleika, en ekki er gert ráð fyrir að nemendur skipti um námsgrein enda er gerð krafa um að þeir ljúki námi á tilsettum tíma til að fá 30% niðurfellingu höfuðstólsins við námslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×