Greg Glassman er hættur sem framkvæmdastjóri CrossFit en hann á enn þá CrossFit einn og það er ekki eitthvað sem íslenska CrossFit drottningin Katrín Tanja Davíðsdóttir er ánægð með.
Katrín Tanja Davíðsdóttir var ein af þeim fyrstu sem gagnrýndi yfirstjórn CrossFit samtakanna og þá sérstaklega Greg Glassman fyrir framkomu hans í málum tengdum George Floyd og réttindabaráttu svartra sem hann gat skít í.
Katrín Tanja hefur nú skrifað nýjan pistil á Instagram síðu sinni og þar sést að hún er ekki hætt í baráttunni sinni að losna við einræðisherrann Greg Glassman. Katrín Tanja fer meira að segja meira í manninn sjálfan en áður.
„Svo hvað hefur breyst?,“ spyr Katrín Tanja Davíðsdóttir í upphafi pistils síns.
„Fyrr í þessari viku þá birti ég mjög vongóðan pistil, því þannig leið mér þá. Ég trúði því að nú yrði breyting til batnaðar. Ég trúði því að við værum á leiðinni að því að endurbyggja íþróttina og okkar og allt samfélagið,“ skrifaði Katrín Tanja.
„Ég er vonsvikin, svo ekki sé meira sagt, með lausnina sem var boðið upp á og ég sé enga breytingu. Það getur vel verið að þetta hafi verið fyrirsögnin sem fréttamiðlar heimsins vildu sjá en í grundvallaratriðum hefur ekkert breyst. Á Greg Glassman ekki ennþá CrossFit hundrað prósent?,“ spyr Katrín Tanja.
„Ég trúi því að við þurfum leiðtoga, sem leiðir af heiðarleika og með rétt siðferði. Íþrótt þar sem fólk vinnur saman og allir eru með. Að hafa réttu grunngildin í fyrirrúmi,“ skrifaði Katrín Tanja.
„Það sem við höfum fengið núna er ekki breyting sem ég get staðið á bak við. Ég trúi því ,að við getum og við eigum að gera betur en þetta,“ skrifaði Katrín Tanja að lokum en það má sjá pistil hans hér fyrir neðan.