Skoðun

Seigla og bjart­sýni

Drífa Snædal skrifar

Vikan hefur einkennst af ferð um landið til að hitta félagsmenn og heyra í þeim hljóðið, útvíkkað þjóðhagsráð kom saman á miðvikudaginn og miðstjórn ASÍ hélt reglubundinn fund um miðja vikuna. Almennt virðist fólk vera nokkuð bratt og bjartsýnt og það er einkennandi að heilsufarsleg og efnahagsleg áhrif Covid-19 hafa komið misjafnlega niður á svæðum. Fjölmörg bæjarfélög hafa hvorki fundið fyrir mikilli uppsveiflu né harðri niðursveiflu hin síðari ár og halda ótrauð og taktföst áfram. Ferðaþjónustusvæðin koma eðli málsins samkvæmt verst út en fólk lítur björtum augum til síðari hluta sumarsins og vetrarins framundan. Það er aðdáunarvert að sjá seigluna í fólki hvar sem komið er þó óvissan sé vissulega mikil, enda óþarfi að óttast eitthvað sem hefur ekki raungerst.

Á fundi þjóðhagsráðs náðum við að fylgja eftir þeirri stefnu sem við höfum markað undir heitinu Rétta leiðin þar sem rauði þráðurinn er að tryggja afkomu og öryggi fólks; byggja undir fjölbreytta atvinnumöguleika og verja innviðina.

Miðstjórn ASÍ ákvað að boða til formannafundar allra aðildarfélaga sambandsins síðar í þessum mánuði til að fjalla um þau risastóru verkefni sem bíða í haust en nauðsynlegt er að hefja undirbúning að núna. Má þar nefna forsenduákvæði kjarasamninga, afkomutryggingu fólks og öryggisnet, uppbyggingu ábyrgrar ferðaþjónustu og tryggingu fólks í ótryggum ráðningarsamböndum. Þetta er ekki tæmandi listi en markmiðið er skýrt: Afkoma og öryggi!

Njótið helgarinnar, Drífa.

Höfundur er forseti ASÍ.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×