Ísland á margar stórstjörnur í CrossFit heimnum og það gæti kannski verið von á fleirum í hópinn ef marka má tilþrifin hjá einni sautján ára stelpu á dögunum.
Hin sautján ára Birta Líf Þórarinsdóttir sýndi styrk sinn í jafnhöttun þegar hún reif upp hundrað kíló tvisvar í röð.
Keppnisfólk eins og Birta þurfa að passa vel upp á mataræðið sitt til að halda réttri stefnu í þjálfuninni og kökur eru því ekki oft á matarbakkanum. Það virðist samt vera smá sykur sem hafi gefið Birtu aukakraftinn í að rífa upp hundrað kílóin á dögunum.
Við myndbandið skrifaði Birta nefnilega: „Fékk mér köku í kvöldmatnum í gær og vaknaði sterkari í dag. Hundrað á slánni,“ skrifaði Birta Líf.
Eitt það skemmtilega við myndbandið er að sjá hversu einbeitt hún er við lyfturnar og svo hversu innilega ánægð hún er í lokin.
Birta Líf tók þátt í heimsleikunum árið 2018 þegar hún keppti í flokki 14 til 15 ára og varð fjórtánda. Hún varð efst á Íslandi í flokki 16 til 17 ára í Open í ár og í 32. sæti á heimsvísu.
CrossFit Reykjavík vakti athygli á lyftum Birtu með því að setja myndbandið hennar inn á Instagram síðu stöðvarinnar.