Erlent

Maður handtekinn vegna hnífstunguárása í Noregi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Sarpsborg í Noregi. Myndin er úr safni.
Frá Sarpsborg í Noregi. Myndin er úr safni. Vísir/Getty

Norska lögreglan handtók karlmann á fertugsaldri sem grunaður er um að hafa stungið þrjár konur í bænum Sarpsborg í Viken sunnanverðum Noregi í gærkvöldi. Ein kvennanna er látin og önnur er alvarlega sár. Maðurinn er sagður hafa ofbeldisdóma á bakinu.

Reuters-fréttastofan hefur eftir lögreglunni að rannsóknin beinist meðal annars að því hvort að maðurinn eigi við geðræn vandamál að stríða. Hann þekkti tvær konurnar sem hann réðst á. Lögreglan hefur útilokað að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Mikil viðbúnaður lögreglu var vegna árásarinnar í gærkvöldi. Vopnaðir lögreglumenn voru sendir á vettvang eftir að tilkynningar bárust um að fólk hefði verið stungið á nokkrum stöðum í bænum.

Lögreglan segir að maðurinn, sem er 31 árs gamall norskur ríkisborgari af sómalískum ættum, hafi gengið berserksgang í miðbæ Sarpsborg klukkan 23:30 að staðartíma, að því er kemur fram í frétt Verdens gang. Fyrst hafi hann stungið konu á sextugsaldri sem beið eftir ættingja í bíl við rútubiðstöð. Hún lést síðar af sárum sínum.

Næst hafi maðurinn sært aðra konu lífshættulega. Ástand konunnar er sagt hafa batnað yfir nótt. Þá réðst maðurinn á hjón á heimili þeirra og stakk konuna í úlnliðinn. Maðurinn er sagður hafa þekkt seinni tvær konurnar sem hann réðst á en engar vísbendingar hafa komið fram um að konan sem hann drap hafi verið honum kunnug.

Til stendur að yfirheyra manninn síðdegis í dag en ekki er ljóst hvaða afstöðu hann ætlar að taka til sakarefnanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×