Gamli Herjólfur lagði loks af stað frá Vestamannaeyjum um klukkan eitt en fyrstu áætlunarferð dagsins var aflýst morgun. Gamli Herjólfur leysir nýja Herjólf af en sá síðarnefndi siglir ekki í dag vegna vinnustöðvunar félagsmanna Sjómannafélags Íslands. Gert var ráð fyrir að skipið legðist að bryggju í Landeyjahöfn eftir rúmlega háfltíma siglingu og sneri strax aftur til Eyja eftir að hafa tekið um borð farþega og ökutæki.
Gamli Herjólfur mun samkvæmt áætlun leggjast aftur að bryggju í Vestamannaeyjum um og upp úr klukkan tvö.
Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélags Íslands, segir að um klárt verkfallsbrot sé að ræða og hann ætli að leita allra leiða til að stöðva áætlunarferðir skipsins.
Gamli Herjólfur er meðal annars mannaður sumar- og afleysingarfólki og er ráðgert að hann sigli fjórar áætlunarferðir til Landeyjahafnar í dag. Vinnustöðvunin um borð í nýja Herjólfi hófst á miðnætti á þriðjudag og lýkur á miðnætti í kvöld.