Robert O‘Brien, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, greindist smitaður af Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur. Hann er nánasti ráðgjafi Trump sem hefur smitast af veirunni til þessa.
Bloomberg-fréttastofan fullyrðir að O‘Brien hafi smitast á fjölskylduviðburði. Hann sé nú í einangrun heima hjá sér en haldi áfram að vinna þar.
Allir þeir sem koma nálægt Trump forseta gangast reglulega undir skimun. Politico segir ekki ljóst hversu mikið O'Brien hefur verið nálægt forsetanum undanfarið.
Í yfirlýsingu Hvíta hússins í dag er O'Brien sagður með væg einkenni. Forsetanum og varaforsetanum stafi engin smithætta af honum og störf þjóðaröryggisráðsins haldi áfram óhindruð.
Fleiri starfsmenn Hvíta hússins hafa smitast af veirunni undanfarnar vikur. Katie Miller, samskiptastjóri Mike Pence, varaforseta, smitaðist og einkaþjónn Trump forseta sömuleiðis. Kimberly Guilfoyle, tengdadóttir Trump, greindist einnig smituð í upphafi þessa mánaðar.
Fréttin hefur verið uppfærð.