Dramatísk upplifun Katrínar Tönju Davíðsdóttur frá undankeppni heimsleikanna fyrir sex árum var gerð góð skil á Instagram síðu heimsleikanna um Verslunarmannahelgina.
CrossFit samtökin hafa undanfarið lagt mikla áherslu á að sýna fram á breytta og betri tíma innan íþróttarinnar og meðal annars hafa þau rifjað upp þá samheldni og samhug sem besta CrossFit fólk heimsins hefur oft sýnt í keppni.
Eins og okkar CrossFit fólk hefur margoft sýnt fram á og talað um þá er mikill og góður vinskapur á milli fólks sem stundar CrossFit íþróttina og allir eru hluti af CrossFit fjölskyldunni.
Katrín Tanja Davíðsdóttir fór fyrir gagnrýni CrossFit fólksins á eiganda CrossFit samtakanna sem átti eflaust sinn þátt í því að það urðu eigandaskipti hjá CrossFit.
Katrín Tanja hótaði því að keppa aldrei aftur á vegum CrossFit samtakanna ef Greg Glassman yrði áfram eigandi CrossFit samtakanna en hann hefur nú selt CrossFit til Eric Roza.
Fram undan eru heimsleikarnir í september en þeim hefur reyndar þegar verið frestað í tvígang vegna kórónuveirufaraldursins. Katrín Tanja verður vonandi meðal keppanda þar.
Katrín Tanja var í aðalhlutverki í nýrri færslu CrossFit samtakanna þar sem rifjuð var upp afar dramatísk stund frá því í undankeppni Evrópu fyrir heimsleikanna árið 2014.
Katrín Tanja lenti þá á „vegg“ og brotnaði niður í miðri æfingu sem henni gekk illa að klára. Katrín Tanja skrifaði um þessa upplifun sína í bók sinni „Dottir“ sem kom út á síðasta ári.
Það leit út fyrir að Katrín Tanja ætlaði ekki að standa upp aftur og að hún ætti ekki afturkvæmt í keppnina.
„Neikvæðnin flæddi um huga minn og ýtti út öllum jákvæðum hugsunum. Ég skammaðist mín og var svo berskjölduð fyrir framan allt þetta fólk,“ skrifaði Katrín Tanja í bók sinni.
CrossFit samtökin birtu brot úr bók hennar og sýndi með því myndbandið af því sem gerðist í framhaldinu.
Þar má sjá Anníe Mist Þórisdóttur og Björk Óðinsdóttur meðal annars reyna að tala sína konu til en það þurfti á endanum alvöru hreinskilið samtal frá hinni ensku Samönthu Briggs til að bjarga Katrínu Tönju frá því að drukkna í neikvæðninni.
Katrín Tanja lýsti þessu í bókinni sinni. „Sam Briggs hafði klárað æfinguna fjórum mínútum fyrr. Hún og Björk Óðinsdóttir höfðu síðan komið yfir allan keppnisvöllinn og til mín. Sam fór niður á hné og talaði mig til baka frá bjargbrúninni: Þú hefur eina mínútu og svo ferðu af stað. Gefðu mér eina ferð upp reipið. Skilurðu það, segir Katrín að Briggs hafði sagt við sig. Hún sýndi henna enga samúð. Þetta var skipun, rifjaði Katrín Tanja upp í bókinni sinni.
Katrín Tanja Davíðsdóttir missti af heimsleikunum 2014 en snéri sterk til baka og varð heimsmeistari bæði 2015 og 2016.
Það má sjá þessa færslu og upprifjun CrossFit samtakanna hér fyrir neðan.