Anníe Mist Þórisdóttir og Frederik Ægidius eignuðust dóttur í vikunni og það er óhætt að segja að CrossFit heimurinn hafi fagnað vel nýjasta meðlimnum í CrossFit heiminum.
Það hefur ekki heyrst mikið frá þeim skötuhjúum eftir formlegu tilkynninguna en Frederik Ægidius skrifaði mjög falleg orð til konu sinnar á Instagram í gær.
Anníe Mist Þórisdóttir er eins og flestir vita, tvöfaldur heimsmeistari í CrossFit og hefur komist fimm sinnum á verðlaunapall á heimsleikunum. Samkvæmt Frederik Ægidius vann hún þó sitt mesta afrek um síðustu helgi.
„Ég hef eytt næstum því hverri einustu mínútu með Anníe Mist Þórisdóttur mér við hlið frá árinu 2010. Ég séð hana verða tvisvar sinnum hraustustu konu í heimi. Ég hef séð hana koma til baka eftir alvarleg bakmeiðsli og komast aftur á pall á heimsleikunum. Ég hef séð hana fá hitaslag í brennandi hita í Carson í Kaliforníu og hef séð hana eyða endalausum klukkutímum í það að verða betri útgáfa af sjálfri sér,“ skrifaði Frederik Ægidius en bætti svo við:
„En það sem hún gerði um þessa helgi er eitthvað sem ég hélt að væri aldrei mögulegt. Ég vil ekki segja að stelpan mín sé sterkari en stelpan þín en stelpan mín er sterkari en allir,“ skrifaði Frederik.
„Elska þig meira en öll M&M í heimi, meira en allar Ben&Jerrys, meira en allar NYC pizzur sem hafa verið borðaðar og meira en ég get nokkurn tíma tjáð með orðum,“ skrifaði Frederik.
„Þú. Ert. Minn. Heimur,“ skrifaði Frederik Ægidius að lokum en það má sjá alla færslu hans hér fyrir neðan.