Stórt flutningaskip losnaði frá bryggju í Hafnarfjarðarhöfn á sjötta tímanum í morgun. Unnið er að því að koma böndum á skipið, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. RÚV greindi fyrst frá.
Skipið er erlent, hundrað metra langt og fjögur þúsund tonn. Veður er afar slæmt á höfuðborgarsvæðinu og aðstæður í höfninni því erfiðar.
Uppfært klukkan 06:44:
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að skipstjóri skipsins hafi haft samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar klukkan 5:30 og sagt skipið vera að reka upp í olíugarðinn.
Varðskipið Týr var þegar í stað kallað út, sem og dráttarbátar frá Hafnarfirði og Reykjavík. Þá hafa björgunarsveitir sömuleiðis verið kallaðar út. Unnið er að því að koma skipinu að bryggju á ný en stutt er í að Týr og dráttarbáturinn Magni komi á staðinn.
Uppfært klukkan 07:36:
Staðan er óbreytt í Hafnarfjarðarhöfn en varðskipið Týr siglir nú til móts við dráttarbátinn Magna. Skipið mun skýla bátnum fyrir veðri, sem enn er mjög slæmt.
Fréttin hefur verið uppfærð.