Slæmt færi er talin orsök banaslyssins á Reykjanesbraut þar sem ökumaður fólksbíls lét lífið þegar bíll hans rakst framan á snjóplóg sem kom úr gagnstæðri átt á sunnudagskvöld. Ökumaðurinn sem lést var rúmlega fertugur Pólverji sem var búsettur hér á landi.
Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu virðist ökumaðurinn hafa misst stjórn á bílnum í slæmu færi sem gerði á sunnudagskvöld. Áreksturinn átti sér stað við álverið í Straumsvík á tíunda tímanum en fólksbílnum var þá ekið til suðurs í átt að Reykjanesbæ.
Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar var lokað í nokkrar klukkustundir vegna slyssins og voru viðbragðsaðilar að störfum á vettvangi langt fram á kvöld. Vegurinn var opnaður aftur um klukkan hálf eitt um nóttina.
Að ósk aðstandenda verður ekki greint opinberlega frá nafni mannsins sem lést, að sögn lögreglu.