Ríkisstjórn Þýskalands og sambandslandsstjórnir þar hafa sammælst um að taka kolaorkuver landsins úr notkun fyrir árið 2038. Sambandslönd sem hafa fram að þessu reitt sig á kolanámur og orkuver eiga að fá 40 milljónir evra, jafnvirði tæpra 5.500 milljarð íslenskra króna, í skaðabætur samkvæmt áætluninni.
Bruni á kolum er ein helsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum. Með áætlun þýskra stjórnvalda gæti bruni á brúnkolum, mest mengandi tegund kola, verið bannaður þegar árið 2035, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þýskir ríkisdagurinn þarf að samþykkja frumvarp þess efnis síðar á þessu ári.
Skaðabæturnar fara til fjögurra sambandslanda: Saxlands-Anhalt, Saxlands, Norðurrín-Vestfalíu og Brandenborgar. Þeim á að verja í uppbyggingu innviða og endurmenntun fyrrum starfsmanna í kolaiðnaðinum. Kolanámur og orkuver fá einnig bætur vegna minnkandi framleiðslu.
Um þriðjungur af raforku í Þýskalandi er framleiddur með bruna á kolum en helmingur þeirra er brúnkol. Þjóðverjar eru jafnframt stærstu framleiðendur brúnkola í heiminum og bera ábyrgð á 44% brúnkolanotkunar í Evrópu.
Þjóðverjar stefna á að framleiða 65% raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir árið 2030.