Ákveðið hefur verið að rýma fjögur hús í Seljalandshverfi á Ísafirði vegna snjóflóðahættu. Fólk hefur einnig verið beðið um að yfirgefa nokkur hús í dreifbýli á norðanverðum Vestfjörðum. Frá þessu er greint á vef Veðurstofunnar.
Húsin sem hafa verið rýmd á Ísafirði eru undir varnargarði á Seljalandsmúla og eru næst garðinum. Hættumat gerir ráð fyrir að ef mjög stórt snjóflóð fellur á garðinn geti gefið yfir hann og valdið tjóni.
Eins og greint hefur verið frá féllu stór snjóflóð í gærkvöldi ofan Flateyrar og í Súgandafirði. Enn er talin hætta á að stór flekahlaup geti fallið.
Vindur hefur verið hvass með lítilsháttar hléum síðan á föstudag og vindáttin norðaustan, býsna stöðug allan tímann.
Stöðug snjósöfnun í langan tíma eykur snjóflóðahættuna en snjósöfnun á Ísafirði er þó talin talsvert minni en í Önundarfirði og Súgandafirði.
Búist er við því að veður gangi smám saman niður í dag og að það dragi úr snjóflóðahættu síðdegis eða í kvöld.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Rýma fjögur hús í Seljalandshverfi á Ísafirði
