Handbolti

Janus Daði: Við erum töffarar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Janus Daði Smárason átti flottan leik þegar Ísland vann stórsigur á Rússlandi, 34-23, í öðrum leik sínum á EM 2020 í handbolta.

Selfyssingurinn skoraði fjögur mörk og stýrði sóknarleiknum af festu.

„Þetta var frábært. Stuðningurinn var góður. Við byrjuðum af krafti, náðum góðri forystu og stundum þegar það gerist það dettur botninn úr þessu,“ sagði Janus í samtali við Vísi eftir leik.

Íslenska liðið var með mikla yfirburði í leiknum, náði snemma góðri forystu og lét hana ekki af hendi.

„Við erum töffarar. Við vorum samt klaufar í fyrri hálfleik að leysa þetta ekki fyrr. Það kom óþægilegt hökt og mér finnst við vera betri en að þurfa að standa í þessu. En við löguðum það í seinni hálfleik. Vörnin var sterk og við vorum á fullu allan tímann,“ sagði Janus.

Íslenska sóknin hökti aðeins undir lok fyrri hálfleiks þegar Rússar breyttu um vörn. En það lagaðist í seinni hálfleiknum.

„Í seinni hálfleik var meira niðurneglt hvað við ætluðum okkur að gera og þá gekk þetta betur,“ sagði Janus að lokum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×