Skoðun

Opið bréf til ráðherra og þingmanna á íslandi

Jack Hrafnkell Daníelsson skrifar

Kæri þingmaður og ráðherra, hvar í flokki sem þú ert þá skiptir það ekki máli vegna þess sem hér fer á eftir því mig langar að biðja þig að staldra við og hugsa vandlega um það sem hér fer á eftir og biðja þig að setja þig í spor einstaklingsins í þessari stuttu frásögn.

Hugsaðu þér að þú sért í vinnunni. Síminn hringir. Það er yfirhjúkrunarkonan á gjörgæsludeild LSH sem segir þér að 12 ára dóttir þín eða sonur, hafi lent í slysi. Hryggurinn er brotinn, óvíst hvort hún heldur fullri hreyfigetu eða bara 50%.

Um leið og þú leggur á hringir síminn aftur. Það er drengurinn sem er yfir verðbréfadeildinni í bankanum. Hann segir þér að 12 milljónirnar sem þú baðst hann að ávaxta hafi lenti í gengisfalli og séu kannski að tapast. Óvíst hvort tekst að bjarga þeim að fullu eða bara 50%.

Þú hleypur út í bíl og ekur af stað. Hvert stefnir þú? Í bankann? Nei ég hélt ekki. Þú hleypur upp á spítala og þar er sjúkraliðinn og hjúkrunarkonann að reyna að lina þjáningar dóttur þinnar. Sjúkraliðinn mun sitja hjá henni í alla nótt.

Þegar dóttir þín sofnar augnablik, ferðu fram og hringir í bankann. Drengurinn í verðbréfadeildinni er farinn, það er leikur í höllinni. Hjúkrunarkonan kemur fram og segir þér að dóttir þín hreyfi tærnar. Kannski muni hún ná sér. Tárin renna niður kinnar þínar. Er það út af peningunum? Nei ég hélt ekki.

Veltu nú fyrir þér um stund hvort það sé sanngjarnt og eðlilegt að drengurinn í verðbréfadeildinni hafi þreföld laun hjúkrunarkonunnar eða sjúkraliðans.

Ég vona að þú hafir lesið þetta yfir og nú vil ég að þú hugsir hvort þú getir séð þig í sporum þessa einstaklings.

Höfundur er ókunnur en fengið að láni af Alnetinu.

Jack Hrafnkell Daníelsson, efnahagslegur flóttamaður í Svíþjóð, öryrki og eigandi að Skandall.is.




Skoðun

Sjá meira


×