Umfjöllun og viðtöl: FH - ÍR 39-28| ÍR átti engan séns í Kaplakrika

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH.
Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH. vísir/bára

FH niðurlægði ÍR í Kaplakrika í kvöld í 11 marka sigri, 39-28. ÍR átti aldrei séns í leiknum en liðið var 9 mörkum undir í hálfleik, 21-12.  

ÍR byrjaði þó leikinn þokkalega og leiddu þeir eftir fyrstu 10 mínútur leiksins, 4-5. Heimamenn tóku þá við og skoruðu næstu fimm mörk og snéru leiknum í 9-5. Bjarni Fritzson tók þá leikhlé fyrir sína menn í ÍR, en þeir náðu engu alvöru áhlaupi. FH hafði undirtökin á leiknum og leiddu mest með níu mörkum í fyrri hálfleik, 18-9. 

Úlfur Kjartansson fékk beint rautt spjald á 23 mínútu fyrir að brjóta á Einari Rafni Eiðssyni, Úlfur ýtti við honum í loftinu með þeim afleiðingum að hann datt illa. Hann gat þó haldið áfram leik en Úlfur kom ekki meira við sögu. Á sama tíma meiðist Sveinn Andri Sveinsson og gat ekki tekið meira þátt í leiknum. 

FH hélt forystunni út fyrri hálfleikinn og leiddi í hálfleik með 9 mörkum, 21-12. 

Síðari hálfleikurinn var ansi óspennandi, FH hélt ÍR í 8-10 marka fjarlægð, en 13 mörk skyldu liðin að þegar mest lét, 38-25. 

Leiknum lauk með öruggum 11 marka sigri FH, 39-28. 

Af hverju vann FH?  

Þeir unnu leikinn á öllum vígstöðvum, Þeir kafsigldu ÍR-inga gjörsamlega og áttu gestirnir aldrei séns í þessum leik. FH spilaði þéttann varnarleik, Phil Döhler var öflugur fyrir aftan í markinu og sóknarlega gekk allt upp. Leikur uppá 10 hjá Sigursteini Arndal og lærisveinum hans í FH.

Hverjir stóðu upp úr?

Einar Rafn Eiðsson var frábær í leiknum, hann var atkvæðamestur sóknarlega, skoraði 7 mörk og átti 9 sköpuð færi. Svo átti Phil Döhler mikinn þátt í því að draga allt sjálfstraust úr ÍR með því að verja vel, hann var með rúmlega 40% markvörslu. 

Hafþór Már Vignisson og Björgvin Þór Hólmgeirsson reyndu hvað þeir gátu að halda ÍR á lífi en komust ekki langt með það. Þeir voru þó markahæstir, Björgvin með 5 mörk og Hafþór með 6, en báðir voru þeir aðeins með 50% skotnýtingu. 

Hvað gekk illa? 

Þetta var heilt yfir afleitur leikur hjá ÍR, sóknarlega voru þeir staðir, kraftlausir og nýttu ekki færin sín. Varnarlega voru þeir galopnir eins og tölurnar gefa til kynna, fengu á sig 39 mörk og markvarslan var engin. Bjarni Fritzson þjálfari ÍR, skipti reglulega um markvörð en hvorki Sigurður Ingiberg Ólafsson né Óðinn Sigurðsson duttu í gang. 

Hvað er framundan? 

FH fer í Kórinn þar sem þeir mæta HK, svokallaður skyldusigur þar en ÍR fær annað erfiðisverk þegar þeir taka á móti Val í Austurbergi 

Björgvin Þór Hólmgeirssonvísir/vilhelm

 

Björgvin: Við erum ekkert lélegri en FH sko

Björgvin Þór Hólmgeirsson, leikmaður ÍR, var afar ósáttur eftir stórtapið gegn FH 

„Við vorum ekki nógu góðir bara. Við byrjum alveg vel en svo eigum við þrjár, fjórar lélegar sóknir í röð og þeir skora auðveld mörk á okkur. Því miður er bara eins og við brotnum við það“

ÍR fékk skell þegar liðið tapaði óvænt fyrir Fram í síðustu umferð. Það mátti því búast við leikmönnum tvíelfdum til leiks í dag en svo var ekki, Björgvin segir að leikmenn þurfi að líta inná við núna

„Við vorum vel undirbúnir og allt það, en eins og staðan er núna þá þurfum við bara aðeins að skoða stöðuna. Við erum ekkert lélegri en FH sko, við erum alveg jafn góðir og við vorum fyrir tveimur vikum síðan“ sagði Björgvin sem segir liðið ekki lélegra en FH þrátt fyrir þennan afleita leik í kvöld

„Þetta er bara eitthvað í gangi hjá leikmönnum og við þurfum bara hver og einn að skoða okkar mál.“

„Það er nátturlega grautfúlt að tapa með 11 mörkum og vera jarðaðir. Maður spyrnir sér best frá botninum það er bara þannig.“ sagði Björgvin að lokum

 

Steini Arndal: Við stefnum alltaf eins langt og hægt er

Sigursteinn Arndal var að vonum mjög ánægður eftir stórsigur sinna manna í Kaplakrika í kvöld 

„Ég er mjög ánægður og stoltur af liðinu. Þetta var mjög kraftmikið í dag, þeir voru á fullu allar 60 mínúturnar og ég er mjög ánægður með það“ sagði Steini sáttur með kraftinn í liðinu 

„Þetta var mjög massív frammistaða, eitthvað sem við ætluðum okkur að gera. Við ætluðum okkur að koma kraftmiklir inn og það tókst, við héldum þetta vel út“

„Við stefnum alltaf eins langt og hægt er, en við getum ekki stefnt á neitt annað en næsta leik og það er HK. Við ætlum að undirbúa okkur vel fyrir þann leik, svo kemur smá pása þá getum við farið að setja smá kraft í æfingarnar aftur“ sagði Sigursteinn Arndal sem virðist ætla að nýta bikar fríið vel í byrjun mars, en liðið féll úr leik þar í 8 liða úrslitum 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira