Handbolti

Rúnar: Miðað við leikmennina sem ég hef er ég ekki sáttur með sóknarleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar hrósaði varnarleik Stjörnunnar en var ekki jafn ánægður með sóknarleikinn.
Rúnar hrósaði varnarleik Stjörnunnar en var ekki jafn ánægður með sóknarleikinn. vísir/daníel

„Ég er svekktur. Eftir síðasta leikhléið okkar lentum við þremur mörkum undir og það var ekki liðin mínúta. Það kláraði hálf partinn leikinn fyrir þá. Þótt við höfum komið til baka náðum við aldrei að komast aftur yfir,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við Vísi eftir tapið fyrir ÍBV, 26-24, í úrslitaleik Coca Cola-bikars karla í dag.

Skotnýting Stjörnunnar aðeins 44% á meðan skotnýting Eyjamanna var 60%. Stjörnumenn fóru illa með færin sín og lykilmenn voru með slaka nýtingu.

„Við klikkuðum á tveimur vítum og menn voru ragir í mörgum stöðum. Svona gerist,“ sagði Rúnar sem hrósaði varnarleik sinna manna.

„Við spiluðum dúndurvörn á móti þeim en þeir voru væntanlega með betri markvörslu þrátt fyrir allt. Við hefðum alveg getað gert þetta að aðeins jafnari leik ef við hefðum komið betur út úr leikhléunum.“

Rúnar hefði viljað sjá sína menn leysa vörn ÍBV betur.

„Við vorum hikandi. Við vildum losa aðeins um taumana og vera svolítið brattari að sækja á þá. En svona er þetta,“ sagði Rúnar.

„Varnarleikurinn var góður í leikjunum tveimur en ég er ekki sáttur með sóknarleikinn á móti vörn ÍBV. Miðað við leikmennina sem ég hef er ég ekki sáttur með sóknarleikinn okkar. Vonandi fáum við tækifæri til að mæta ÍBV aftur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×