Viðskipti innlent

Hátt í þriðjungur hótelbókanna hverfur vegna ákvörðunar Trump

Birgir Olgeirsson skrifar
Kristófer Oliversson
Kristófer Oliversson Vísir
„Fyrir hótelgeirann þýðir þetta væntanlega að hátt í þriðjungur allra bókana hverfur á meðan þetta bann varir,“ segir Kristófer Oliversson, formaður Félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu, um ferðabannið sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur boðað vegna kórónuveirunnar. Hefur forsetinn lokað á ferðalög frá Evrópu til Bandaríkjanna.

„Síðan er keðjuverkun sem er ófyrirséð. Þetta eru svo stórar ákvarðanir sem hafa verið teknar. Ítalir loka búðum, Danir loka skólum, ferðabann í Bandaríkjunum. Við getum búist við stórum ákvörðunum þegar líður á daginn. En allt stefnir þetta á verri veginn. Með falli WOW Air fækkaði farþegum frá Bandaríkjunum hingað mikið. Þeir eru væntanlega 25 til 30 prósent að í bókunum hjá flestum um þessar mundir,“ segir Kristófer.

„Þegar gesturinn kemst ekki á staðinn þá fer þetta að þyngjast allt saman,“ segir Kristófer.

Hann bendir þó á að ef að leggja átti á ferðabann í Bandaríkjunum þá sé þetta skársti tíminn. Mars og apríl eru rólegustu mánuðirnir í ferðaþjónustu.

„En þeir sem hafa þraukað veturinn í von um betri tíð í sumar, þeir sjá ekki fram á betri tíð.“

Hann segir mikilvægt að stjórnvöld bregðist hratt við.

„Og það þarf að skoða að fólk geti farið að hluta til á atvinnuleysiskrá svo það þurfi ekki að fara í fjöldauppsagnir. Þetta er það sem þarf að svara fljótt því eigið fé þurrkast hratt upp í svona stöðu,“ segir Kristófer en það úrræði var í boði í efnahagshruninu árið 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×