Viðskipti innlent

Heimamenn auka hlut sinn í gullnámum Elds á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá einu af leitarsvæðum AEX Gold á Suður-Grænlandi.
Frá einu af leitarsvæðum AEX Gold á Suður-Grænlandi. Mynd/AEX Gold.
Opinberu fjárfestingarsjóðirnir Greenland Venture Fund og Danish Growth Fund hafa tvöfaldað hlut sinn í kanadíska gullnámufélaginu AEX Gold. Íslendingurinn Eldur Ólafsson er stofnandi og framkvæmdastjóri félagsins en það vinnur að því að endurvekja gullvinnslu í námum á Suður-Grænlandi. 

Sjóðirnir nýttu sér kauprétt að hlutafé upp á 3,8 milljónir kanadískra dollara, andvirði um 350 milljóna íslenskra króna, að því er fram kemur í tilkynningu félagsins. Við það hækkaði hlutur hvors sjóðs úr 5% upp í um 10%, eða samtals upp í um 20%.

Fjárfestar í AEX Gold eru um tvöhundruð talsins. Tæplega þriðjungur hlutfjár er í höndum Íslendinga, þar af um tólf prósent í eigu Elds og fjölskyldu hans. 

Sjá einnig hér: Íslenskur jarðfræðingur kominn með 50 milljarða gullnámur á Grænlandi

Eldur Ólafsson jarðfræðingur er stofnandi og framkvæmdastjóri AEX Gold.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Í tilkynningu AEX Gold lýsir Eldur ánægju sinni með ákvörðun sjóðanna, sem lýsi trú fjárfesta á möguleikum félagsins. Það fái þannig aukið fjármagn til að byggja upp gullvinnslu á Grænlandi og sérstaklega Nalunaq-verkefnið. Stefnt er að því að sú náma verði komin í fullan rekstur fyrir lok árs 2021. 

Í viðtali við grænlenska fréttamiðilinn Sermitsiaq segir Eldur að það hafi mikla þýðingu að hafa stuðning sjóðanna. Það styrki tengsl félagsins við bæði Grænland og Danmörku. 

„Þannig að þegar okkur gengur vel, þá gagnast það líka löndunum tveimur,“ segir Eldur. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá því í desember um að Eldur hafi kveikt gullæði á Grænlandi:


Tengdar fréttir

Eldur sagður kveikja gullæði á Grænlandi

Gullæði á Grænlandi. Þannig hljómar fyrirsögn eins grænlensku fjölmiðlanna eftir að fréttir bárust um stóran gullfund fyrirtækis, sem Íslendingurinn Eldur Ólafsson stendur að.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×