Simon Stone á BBC greinir frá því að spænska stórveldið Barcelona hafi áhuga á vinstri bakverðinum Angelino. Þessi 23 ára vinstri bakvörður hefur verið á láni hjá RB Leipzig undanfarna sex mánuði er nú snúinn aftur í herbúðir Manchester City.
Þó svo að City hafi verið í vandræðum með vinstri bakvarðarstöðuna hjá sér þá hefur Pep Guardiola – þjálfari liðsins – ekki haft not fyrir spænska bakvörðinn.
Nú virðist sem Ronald Koeman – nýráðinn þjálfari Börsunga – hafi ákveðið að Angelino sé leikmaðurinn sem eigi að taka við af Jordi Alba sem vinstri bakvörður félagsins. Alba – er líkt og nær allir leikmenn eru á sölulista eins og staðan í dag.
Börsungar eru ekki eina liðið í leit að vinstri bakverði en Chelsea ku vera í þann mund að ná samkomulagi við Leicester City um kaup og kjör á Ben Chilwell, enska vinstri bakverði síðarnefnda liðsins.